Friday, January 13, 2017

2 0 1 6


Ég get með sanni sagt að 2016 var eitt besta ár lífs míns. 

Árið byrjaði nokkuð vel, útlandaferð og önnur skemmtilegheit en í mars kom veltipunktur ársins. Það var kominn tími til að enda sambandið sem ég hafði verið í síðan ég var unglingur. Við höfðum búið saman í fimm ár og eigum saman minningar sem ég mun varðveita að eilífu. En það er nauðsynlegt að hlusta á hjartað sitt og fylgja því og það er það sem ég gerði. 

Við tóku nokkuð erfiðir tímar en ég fann fljótt hamingjuna aftur. Allt í einu var ég einhleyp ung dama í stóru borginni, borgandi reikningana alein og byrjuð á Tinder (förum ekki nánar út í það að þessu sinni). Þetta hefur verið ágætlega erfitt á tímunum en allt í allt hefur það hefur gengið furðulega vel. Ég er kannski ekki alveg jafn glæsileg og stöllur mínar í Sex and the City en lífið er gott og við Ása erum ekki að svelta (þvert á móti). Ef ég segji alveg satt þá er ég hrikalega stolt af sjálfri mér, það er gaman að sjá að maður getur staðið á eigin fótum og ég ætla að gefa sjálfri mér klapp á bakið.

Í gegnum þessar tilfinningasveiflur þá gerðist þó nokkuð skemmtilegt; ég fann ástina á sjálfri mér. Í fyrsta skipti á ævi minni leið mér (og líður enn) 100% vel í eigin skinni. Eftir mörg ár af því að finnast ég ekki nógu góð hef ég loksins tekið sjálfa mig í sátt. Þó ég sé ekki með fullkomið nef, bæti á mig nokkrum kílóum eða geri mistök þá er ég er falleg, fyndin og góðhjörtuð. Ég er ekki og mun aldrei vera fullkomin og það er bara í góðu lagi. Ef fólk kann ekki að meta mig eins og ég er þá er það bara fólk sem ég ætla ekki að eyða tímanum í.

Ég er ekki að segja að ég eigi ekki mína off daga, það er eðlilegt og gerist fyrir alla. Það er bara nauðsynlegt að læra að kljást við vandamálin, stressa sig ekki á litlu hlutunum og horfa fram á við. Vera óhræddur við að leyfa sér að gráta og fá hjálp frá öðrum. Á endanum skoppar maður ennþá sterkari til baka.

Eins og ég sagði í byrjun færslunar þá var árið frábært (þrátt fyrir nokkra daga sem ég hélt ég myndi drukkna úr tárum). Ferðalögum, útihátíðum og trilljón kvöldum á Prikinu naut ég með yndislegu fólki. Ég eignaðist fullt af nýjum vinum og náði að styrkja gömul vinabönd ásamt því að fá endalaust af knúsum frá fjölskyldunni. Ég hef aldrei verið ríkari. Þetta fallega og góða fólk er ástæðan fyrir því að árið mitt var svona gott. Án þeirra hefði það verið algjört prump. 

Ég vil einnig þakka ykkur elsku vinir útum allar trissur fyrir að fylgjast með mér allan þennan tíma. Sum ykkar eruð bara að kynnast mér fyrst núna og sum ykkar hafa verið með mér frá því að ég byrjaði. Takk fyrir allt, takk fyrir stuðninginn og ástina. Þið eruð yndisleg x 

Nú er kominn tími á að loka kafla 2016 og hefja kafla 2017. Hann verður eflaust æsispennandi og ég hlakka til að leyfa ykkur að vera með!

PS. Ég er alltaf svolítið væmin.
post signature

Blogger Template designed By The Sunday Studio.